Hafnarfjörður - horft til framtíðar
Það er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn í skipulagsmálum þannig að þær ákvarðanir sem við tökum í dag leiði til þess að sú sýn geti orðið að veruleika. Þegar ég horfi fram til ársins 2050 og skoða hvaða framtíð við viljum skapa í Hafnarfirði er mikilvægt að máta plön við ólikar og framsæknar sviðsmyndir út frá óvissum en mögulegum drifkröftum framtíðarinnar. Vert er að huga að stórum framkvæmdum og uppbyggingaráformum sem eru nú þegar á teikniborðinu og munu líklega hafa áhrif á okkur Hafnfirðinga. Ber þar m.a. hátt þróun og uppbygging Keflavíkurflugvallar og þau plön sem Kadeco hefur sett sett fram til ársins 2050, umræður um flutning innanlandsflugs til Keflavíkur og uppbyggingaráform Carbfix varðandi kolefnisförgun í Straumsvík, svo fáein dæmi séu nefnd.
Ég tel mikilvægt að bæjaryfirvöld efni reglulega til samráðs og samtals við bæjarbúa um stefnuáherslur til framtíðar, því þannig má skapa tækifæri fyrir bæjarbúa til þess að taka þátt í að móta sitt nánasta umhverfi.
Þegar horft er til ársins 2050 er viðbúið að hér í Hafnarfirði búi á bilinu 42-60 þúsund manns. Á sama tíma áætlar Hagstofan að við Íslendingar verðum um 500.000 talsins. Um 63% mannfjöldans býr á Stór-Reykjavíkursvæðinu 1. janúar 2021, þ.e. samfelldri byggð frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar. Er því viðbúið að fjölgunin á svæðinu í kringum Hafnarfjörð verði um 100.000 manns eða 3.600 manns á ári, en sú fjölgun íbúa kallar á fjölgun um 1.500 íbúðir á svæðinu á ári. Svara þarf því, hvar koma á þeim íbúðum fyrir.
Hafnarfjörður er nú þriðji stærsti bær landsins með um 30.000 íbúa. Bærinn hefur vaxið hratt á undanförnum árum og ný hverfi hafa risið með fjölbreyttu og blómlegu mannlífi og víst er að umfangsmikil vinna hefur verið unnin á síðasta kjörtímabili, þar sem skipulagsmál hafa verið áberandi á dagskrá bæjarstjórnar Hafnarfjarðar allt síðasta ár. Nú eru hundruð íbúða í byggingu á nýbyggingarsvæðum ásamt tugum íbúða á þéttingarreitum. En örri fólksfjölgun fylgja margar áskoranir og að ýmsu er að hyggja, m.a. uppbyggingu samgöngumannvirkja, grunnskóla, leikskóla, íþróttamannvirkja, hjúkrunarheimila og annarra innviða, til að mæta auknum þörfum framtíðar. Mikilvægt er að ráðast í hönnun mannvirkja með góðum fyrirvara, þar sem reynslan sýnir að undirbúningur og hönnun getur tekið langan tíma, m.a. vegna kröfu umumhverfismat og mögulegra kærumála. Einnig má nefna að raforkuspá Orkustofnunar gerir ráð fyrir að orkunotkun muni aukast um 90% fram til ársins 2050. Hvernig ætlum við að mæta þörfum heimila og atvinnulífs fyrir aukna orku og hvernig er ástand burðarvirkja tl þess að mæta aukinni og líklega breyttri notkun, svo sem á hafnarsvæðum með kröfum um tengingu og sölu orku til báta og skipa? Það á vissulega enn við hið fornkveðna, að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið, og þá skiptir miklu að í aðdraganda öllum fari fram frjó og markviss umræða.
Nú eru tæplega 11 þúsund íbúðir í Hafnarfirði og mun þeim þurfa að fjölga um 9 þúsund á næstu 28 árum, eða um 321 á ári[1]. Mikilvægt er að horfa til þarfa ólíkra hópa með fjölbreyttu framboði íbúða og nauðsynlegt er að íbúum Hafnarfjarðar geti staðið til boða öruggt húsnæði við hæfi. Þá er og mikilvægt að taka mið af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar, sem hafa mun mikil áhrif á nauðsynlega íbúðasamsetningu bæjarins.
Ljóst er að mikil uppbygging er framundan í Hafnarfirði. Nauðsynlegt er að halda uppi sterkri rödd gagnvart ríkisvaldinu varðandi fjármögnun og umbætur á stofnvegum, sem liggja um bæinn ásamt auknu samráði og samstarfi við ríki og nágrannasveitarfélög um grunnþætti í skipulagi höfuðborgarsvæðisins. Þar skiptir höfuðmáli að ná saman um skilvirka tengingu og uppbyggingu stofnvega á svæðinu, fyrirkomulag hagkvæmra almenningssamgangna og ekki síst skýrar línur um úthlutun og fjölda lóða á svæðinu öllu fyrir mismunandi búsetuform íbúðarhúsa og tegundir atvinnuhúsnæðis. Þar þurfum við Hafnfirðingar að koma sterk til leiks.
Tryggjum ungu fólki rödd í bæjarstjórn. Ég leita eftir stuðningi til þess að skipa 4. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Ég vil leggja mitt af mörkum til mótunar á framtíð Hafnarfjarðar í samstarfi og samvinnu við öflugan hóp í bæjarstjórn; íbúum öllum, ungum sem öldnum til heilla.
Hilmar Ingimundarson – www.hilmari.is
Býður sig fram í 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins
fyrir sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði 2022
[1] Miðað við að meðaltali 2,5 einstaklingar í hverri íbúð
Birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 5. mars 2022 -
Sjá hlekk á grein - https://www.mbl.is/mogginn/bladid/innskraning/?redirect=%2Fmogginn%2Fbladid%2Fgrein%2F1803409%2F%3Ft%3D174173571&page_name=grein&grein_id=1803409
Comments