top of page
Search
  • himmi78

Klifurfélag Reykjavíkur – 20 ára

Sunnudaginn 13. febrúar næstkomandi eru 20 ár liðin frá stofnun Klifurfélags Reykjavíkur. Stofnfelagar voru 19 og var skipuð 5 manna stjórn, sem skipti með sér verkum, og var Hallgrímur Örn Arngrímsson skipaður fyrsti formaður félagins. Fimm einstaklingar hafa síðan leitt félagið í gegnum mikinn vöxt og uppbyggingarstarf (frekari upplýsingar um stjórn: https://klifurhusid.is/klifurfelag-reykjavikur/stjorn/ ). En saga klifurs á sér lengri sögu hér á landi og er gaman að líta yfir farinn veg á tímamótum sem þessum og meta allt það sem hefur áunnist áður en lengra er haldið og hugað að framtíðinni.


Klifur hefur þróast mjög mikið undanfarna áratugi. Í hugum margra er klifur lífsstíll og getur tekið á sig mörg form. Það er hægt að stunda klifur innandyra, á þar til gerðum veggjum með festum til að líkja sem mest eftir fjölbreytileika náttúrunnar eða utandyra í klettum og fjalllendi. Það er stundað allan ársins hring þar sem klifrað er í klettum, ís eða snjó. Allt eftir áhuga, metnaði og dirfsku viðkomandi. Klifur er einstaklingsíþrótt en oftast stunduð í hóp, og skiptir félagskapurinn oft á tíðum meira máli heldur en afrekin hverju sinni.


Fyrsta vísi að skipulögðu starfi tengdu klifri má rekja til stofnunar Ísalp (Íslenska Alpaklúbbsins: www.isalp.is ) árið 1977, sem er starfrækt enn í dag sem félag áhugamanna um fjallamennsku, og var mikill vöxtur í klifri hér á landi í framhaldi af stofnun klúbbsins. Um miðjan níunda áratuginn var fyrsta skipulagða keppnin í klifri haldin á Ítalíu á sérsmíðuðum keppnisvegg og það var síðan 1991 sem fyrsta heimsmeistaramótið var haldið í Frankfurt í Þýskalandi. Klifur þróaðist sem íþrótt á þessum tíma og á heimsvísu var skipulögð keppni og utanumhald að mótast eftir reglum og stöðlum alþjóðlegu íþróttahreyfinganna. Á sama tíma voru sterkir klifrarar hér á landi að hasla sér völl á erlendri grundu og áhuginn á því að keppa var aldrei langt undan. Úr varð að Sportklifurfélag Reykjavíkur (SKFR) var stofnað árið 1994 til að geta skráð keppendur á mót erlendis, en jafnframt til að standa að keppnismótum hér á landi. Markmiðið var einnig að koma upp viðunandi æfingar- og keppnisaðstöðu, en raunin varð síðan sú að brautryðjendur í sportklifri hér á landi opnuðu fyrstu æfingaraðstöðuna árið 1997 á eigin kostnað. Þeir ráku hana undir nafni Vektor í Borgartúni þar til það rann inn í nýstofnað Klifurfélag Reykjavíkur, sem hélt utan um rekstur og byggingu á nýrri aðstöðu. Úr varð að Klifurhúsið opnaði 300 m² aðstöðu í Skútuvogi 1 i Reykjavík og hélt þar úti öflugri æfingaaðstöðu, námskeiðumog keppnum ásamt því að halda uppi frekari uppbyggingu og kynningu klifurs á Íslandi. Um fimm þúsund manns nýttu sér aðstöðuna á ári þegar mest lét og þar af voru 300 manns í reglubundnum æfingum, rúmlega þúsund manns voru með aðgangskort og 3.500 manns komu í stök skipti. Klifurfélagið gerðist aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur í júní 2004 og var það mikil viðurkenning á öllu því uppbyggingarstarfi, sem hafði verið lagt upp með fram að því. Árið 2013 missti Klifurfélagið húsnæðið í Skútuvogi og í annað sinn á rúmum 10 árum var félagið húsnæðislaust. Eftir mikla þrautagöngu og elju náðist að opna nýja aðstöðu í Ármúla 23, eftir tæpt ár í rekstrarstoppi, og nú þá í tvöfalt stærra rými. Þá reyndist stuðningur Íþrótta- og Tómstundaráðs Reykjavíkur mikilvægur á ögurstundu í rekstri félagsins.


Klifurfélag Reykjavíkur, sem rekur Klifurhúsið, stendur nú enn og aftur á tímamótum eins og áður sagði. Rúmlega 1400 iðkendur stunda reglubundnar æfingar í Klifurhúsinu og yfir árið eru yfir 8000 heimsóknir seldar í stök skipti. Klifurfélagið heldur að jafnaði 5 klifurmót, sem hluti af Íslandsmótaröðinni og Bikarmót, en undanfarin 3 ár hefur félagið einnig haldið utan um klifurmót fyrir Reykjavík International Games.


Mikil gróska er í klifri hér á landi, bæði í barna- og unglingastarfi sem og afreksstarfinu. Margir vilja stunda klifur sem líkamsrækt, en félagskapurinn er það sem flestir sækjast í. Við erum með iðkendur sem hafa staðið sig vel á Norðurlandamótum undanfarin ár og stefnan er að komast að með keppendur á alþjóðlegum mótum,þegar farið verður að keppa aftur reglulega. Það má því til sanns vegar færa að klifuríþróttin hafi vaxið hratt hér á landi undanfarin ár og er gaman að geta þess í því sambandi að á nýliðnu ári fékk Klifurfélag Reykjavíkur aðild að nýstofnuðu Klifursambandi Íslands. Klifurnefnd ÍSÍ var sett á laggirnar árið 2018, en slíkt er undanfari þess að verða sérsamband. Nú er klifur stundað í sex íþróttafélögum innan sex héraðssambanda ÍSÍ og er von á því að fleiri sambönd taki klifuríþróttina upp á næstu misserum. Klifur var í fyrsta sinn keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum síðastliðið sumar og þótti klifurkeppnin heppnast ákaflega vel Stefnt að því að klifur verði áfram keppnisíþrótt á næstu Ólympíuleikum í París 2024 og er því að miklu að keppa fyrir íslenska klifrara.


Í tilefni af 20 ára afmæli Klifurfélags Reykjavíkur er opið hús í æfingaaðstöðu félagsins í Armúla 23 í Reykjavík á afmælisdagin, 13. febrúar, kl. 14-16. Félagar og velunnarar eru boðnir hjartanlega velkomnir.


Hilmar Ingimundarson

Formaður Klifurfélags Reykjavíkur

10.02.2020


Birtist á www.visir.is





8 views0 comments

Comentarios


Post: Blog2_Post
bottom of page