top of page
Search
  • himmi78

Rafmagnshjól með virðisaukaskattsvindinn í fangið á nýju ári

Með setningu bráðabirgðaákvæðis XXVI við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 154/2019, var tollyfirvöldum gert heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt upp að hámarki 96.000 kr. við kaup á virkum samgöngutækjum. Á þessum fjórum árum hafa rafmagnshjól, og hjólreiðar almennt, heldur betur rutt sér til rúms hér á landi og opnað hefur verið fyrir mun stærri hóp að nýta sér hjólreiðar bæði til þess að fara í og úr vinnu og sinna öðrum erindum, en ekki síður til að efla lýðheilsu. Það er jákvæð breyting og ánægjulegt að sjá hvað rafmagnshjólum hefur vaxið ásmegin undanfarin ár og skipa sífellt stærri sess á stígum og slóðum á höfuðborgarsvæðinu.

Nú um áramótin taka gildi breytingar þar sem fella á niður framangreint bráðabirgðaákvæði, og aðeins á að styrkja kaup á rafmagnsbílum og öðrum hreinorkubílum. Fallið verður því frá stuðningi sem hefur verið síðustu ár vegna kaupa á virkum samgöngutækjum, eða öðrum farartækjum sem flokkast sem vistvæn. Rafmagnshjól og reiðhjól munu ekki falla inn í nýtt styrkjakerfi Orkusjóðs sem tekur við af núgildandi virðisaukaskattsívilnunum. Á tímum þegar verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum og umhverfismál og heilsa almennings eru í brennidepli skýtur það skökku við að sporna gegn hvötum til fjölbreyttari og heilsusamlegri samgangna. Rafmagnshjól eru kærkomin og ánægjuleg viðbót við þá fjölbreyttu flóru samgöngumáta sem nýtist okkur við að komast á milli staða. Fyrirhugaðar breytingar á ívilnunum vegna kaupa á rafhjólum tel ég að mismuni ört stækkandi hópi fólks sem kýs að hjóla til vinnu og nýta reiðhjól sem ferðamáta, þegar því er við komið. Endurgreiðslan fullnýtist í núverandi fyrirkomulagi fyrir rafmagnshjól sem kostar um 400 þúsund krónur, sem mun hækka uppí tæp 500.000 krónur eftir áramót þegar niðurfellingarinnar nýtur ekki lengur við. Það munar um minna. Því mun óhjákvæmilega draga úr nýliðun og fjölgun í hópi vistvænni samgangna.

Það er því mikilvægt að virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagnshjól og reiðhjól fái áfram brautargengi og að hún verði framlengd til að styðja við frelsi einstaklingsins til að geta nýtt sér umhverfisvænni og heilsusamlegri samgöngumáta. Því leyfi ég mér að hvetja alþingismenn til þess að halda aftur af opinberum álögum á rafknúin reiðhjól, senda jákvæð og rétt skilaboð um vistvænar samgöngur og styðja við alla samgöngumáta til jafns.

Hilmar Ingimundarson

14.12.2023

Á góðri stund að hjóla eftir Ocean Front Walk á Pacific Beach í San Diego



28 views0 comments

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page