Nýárspistill formanns Klifurfélags Reykjavíkur 2025
- himmi78
- Dec 31, 2025
- 2 min read
Þegar árið 2025 kveður er eðlilegt að líta yfir farinn veg og staldra við. Undanfarin ár hafa verið bæði krefjandi og lærdómsrík fyrir Klifurfélag Reykjavíkur, en um leið afar gefandi. Ég hef haft þann heiður að gegna starfi formanns félagsins frá árinu 2018, nú í hartnær sex ár, og á þeim tíma hefur eitt markmið verið skýrast allra: að efla félagið, styrkja starfsemina og tryggja því framtíðarhæft heimili.
Árið sem nú er að líða staðfestir að sú vinna skilar árangri. Í lok árs sneri íslenska landsliðið heim frá Norðurlandamóti í línuklifri í Bergen með frábæran árangur. Þar stóð Greipur Ásmundarson upp úr með gullverðlaun í U19 flokki eftir afar sterka frammistöðu. Hann klifraði í úrslitaleið sem var sú sama og notuð var í fullorðinsflokki og náði 21+ stigum, jafnmörgum og sigurvegari fullorðinna. Það segir sína sögu um gæði afreksstarfsins sem byggst hefur upp hérlendis. Greipur er nú þrefaldur Íslandsmeistari í línuklifri og bætti einnig við sig Íslandsmeistaratitli í grjótglímu á árinu.
Einnig á Gauti Stefánsson skilið sérstakt hrós fyrir bronsverðlaun í paraklifurflokknum AL2. Hann jafnaði sinn besta árangur og heldur áfram markvissri vegferð í átt að Ólympíuleikum fatlaðra í Los Angeles 2028. Heildarframmistaða hópsins í Bergen var afar sterk og staðfestir að íslenskir klifrarar standa jafnfætis félögum sínum á Norðurlöndunum.
Slíkur árangur verður ekki til af sjálfu sér. Hann byggir á öflugu starfi starfsmanna og sjálfboðaliða. Þar vil ég sérstaklega þakka Benjamín framkvæmdastjóra félagsins, sem hefur leitt starfið af fagmennsku, yfirvegun og metnaði. Á árinu bættust einnig nýir starfsmenn í hópinn sem hafa styrkt starfsemina enn frekar og eiga allir þakkir skildar fyrir sitt framlag.
Félagið hefur vaxið hratt og iðkendafjöldi aukist þrátt fyrir takmarkaða aðstöðu. Við höfum nýtt rýmið í Ármúla 21 og 23 til hins ýtrasta og viðbótin í Miðgarði hefur sannað gildi sitt. Engu að síður er ljóst að húsnæðismál félagsins eru stærsta verkefnið fram undan. Vinna við Toppstöðina hefur haldið áfram, en mikilvægt er að óvissu verði eytt og línur skýrist sem fyrst.
Að því loknu vil ég þakka klifurfélögum, starfsmönnum, sjálfboðaliðum og velunnurum fyrir samstöðu, traust og gott samstarf á árinu sem er að líða. Með sameiginlegu átaki höldum við áfram að byggja sterkt og lifandi klifursamfélag.
Gleðilegt nýtt klifurár, með von um að framtíðarhúsnæði félagsins skýrist og næstu skref verði tekin af festu og bjartsýni.
Hilmar Ingimundarson
Formaður Klifurfélags Reykjavíkur

Birtist á heimasíðu Klifurfélags Reykjavíkur - www.klifurhusid.is (https://klifurhusid.is/nyarspistill-formanns-klifurfelags-reykjavikur-2025/ )



Comments