top of page
Search
  • himmi78

Heilsársopnun leiksskóla

Updated: Jan 31, 2022

„Sumarið er tíminn“ segir í þekktum söngtexta. Um þetta leyti árs byrja margir að skipuleggja sumarið og hvernig best verði hægt að púsla því saman út frá möguleikum einstakra fjölskyldumeðlima. Oft hefur það reynst þrautin þyngri, ekki síst vegna þess að útdeildur orlofstími foreldra og barna hefur sjaldnast fallið saman. Ég tók því fagnandi ánægjulegum og hvað mér finnst mjög svo jávæðum fréttum um að foreldrum gæti staðið til boða að skipuleggja sumarfríið á komandi sumri óháð sumarlokunum á leikskóla; meiri líkur væru þá á að báðir foreldrar gætu nú saman deilt sumarfríinu með börnunum. Við hjónin erum nú með þriðja barn okkar á leikskóla í Hafnarfirði. Til þessa höfum við þurft að sníða sumarfríið í kringum júlílokanir leikskólanna, en það hefur verið undir hælinn lagt hvort það næðist og hvað þá að við næðum bæði að taka sumarleyfi okkar á sama tíma. Það hefur ekki alltaf gengið þrautalaust fyrir sig og hefur raunar oft reynst erfitt að púsla hlutum saman þannig að allt gangi upp í skipulagningu samverustunda fjölskyldunnar yfir sumarið.


Sumarfríið er mikilvægur tími tengslamyndunar og samverustunda á mótunarárum barna. Því tel ég það mikið framfaraspor og fagnaðarefni að Hafnarfjarðarbær skuli nú líkt og Reykjavík og Garðabær ætla að bjóða upp á heilsársopnun leiksólans. Foreldrar hafa lengi kallað eftir þessum breytingum og hefur þetta verið eitt helsta mál á dagskrá Félags foreldra leikskólabarna í Hafnarfirði undanfarin ár, enda ekki hægt að ganga út frá því að allir foreldrar geti tekið sumarleyfi í júlí. Með ákvörðuninni er verið að stíga stórt skref í því að létta undir með barnafjölskyldum og draga úr þeim vanda yfir sumartímann, þegar foreldrar hafa þurft að leita annarra leiða til að fá vistun fyrir börn sín á lokunartíma leikskólans.


Með ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði færist bæjarfélagið enn í átt að barnvænna samfélagi og er hún mikilvæg viðbót við annars almennt mjög góðan aðbúnað barna í bænum. Samveran skiptir höfuðmáli hjá fjölskyldum í sumarfríinu. Það á væntanlega ekki síður við um þá sem eru að veita þjónustuna, leikskólakennara, heldur en þá sem þjónustunnar njóta, börn og foreldra þeirra. Með ákvörðuninni er því einnig verið að stuðla að auknu valfrelsi starfsmanna leikskóla um val á orlofstíma. Aukið valfrelsi með aukinni þjónustu eykur lífsgæði okkar allra og kallar á auknar gæðastundir, sem eru afar mikilvægar fyrir hamingju og þroska barna okkar og okkar foreldranna einnig.


Í sumar munum við geta valið samfellt fjögurra vikna frí í júní, júlí eða águst, allt eftir þörfum okkar. Þetta er mikilsverð þjónustuaukning og kærkomið valfrelsi, sem hefur sannað gildi sitt í nágrannasveitarfélögunum. Tökum sumrinu fagnandi og njótum þess að vera saman - saman.


Greinin birtist í Hafnfirðing 10. Febrúar 2021 - https://www.visir.is/paper/serblod/hafnfirdingur_2021_03.pdf
42 views0 comments

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page