Virkni, félagsskapur og heilsuefling eldri borgara
- himmi78
- Oct 2
- 2 min read
Það er öllum ljóst að mannleg samskipti, regluleg hreyfing og dagleg virkni skipta sköpum fyrir lífsgæði fólks. Þetta á ekki síst við þegar árin færast yfir. Félagsleg einangrun er ein helsta ógn við velferð eldri borgara, því hún getur ýtt undir bæði líkamlega og andlega vanlíðan. Þess vegna er mikilvægt að við í Hafnarfirði – og reyndar á landsvísu – leggjum aukna áherslu á að hlúa að virkni og þátttöku eldra fólks í samfélaginu.
Hafnarfjörður hefur lengi verið leiðandi í því að styðja við öflugt félagsstarf eldri borgara. Þar hefur skapast vettvangur fyrir samveru, skapandi starf, fræðslu og hreyfingu. Slík starfsemi er ekki aðeins skemmtileg heldur býr hún til raunverulegan grunn að betri heilsu og sterkari félagsnetum. Sundlaugar bæjarins eru dýrmætur samkomustaður þar sem eldri bæjarbúar hittast, ræða málin og efla bæði líkama og sál í góðum félagsskap. Félag eldri borgara í Hafnarfirði (FEBH) rekur öflugt félagsstarf í Hraunseli þar sem boðið er upp á margvíslega dagskrá: allt frá stóla-jóga, línudansi og gönguhópum til félagsvistar, kóra og listmálunar. Þá er Janus-heilsuefling í Lífsgæðasetri St. Jó. mikilvægt úrræði þar sem eldri borgarar fá styrktar- og þolþjálfun ásamt reglulegum mælingum og fræðslufundum.
Auk þess hefur bærinn veitt frístundastyrk fyrir eldra fólk og allir eldri borgarar hafa frian aðgang að sundlaugum bæjarins. Sundlaugar eru einmitt kjörnir samkomustaðir þar sem margir hittast daglega, rækta heilsu sína og spjalla um daginn og veginn. Verkefnið „Brúkum bekki“ – þar sem settir hafa verið upp bekkir með stuttu millibili við gönguleiðir – er annað einfalt en áhrifaríkt dæmi um framsýna hugsun í þágu velferðar eldra fólks.
Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing og félagsleg virkni á efri árum dregur úr líkum á heilsufarslegum kvillum, styrkir sjálfstæði og eykur gleði. Það er því fjárfesting fyrir samfélagið allt að leggja metnað í fjölbreytta þjónustu sem höfðar til ólíkra hópa eldri borgara – hvort sem það er í formi líkamsræktar, listsköpunar, sjálfboðastarfs eða einfaldlega tækifæra til samveru.
Við eigum að hvetja til þess að hver og einn finni sína leið til þátttöku. Með því að skapa fjölbreytt úrræði og styðja við bæði formlegt og óformlegt félagsstarf tryggjum við að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Þannig byggjum við upp sterkara samfélag þar sem eldri borgarar eru virkir þátttakendur – með meira sjálfstæði, betri heilsu og aukinni gleði í daglegu lífi. Hilmar Ingimundarson Birtist í Fjarðarfréttum þann 02.10.2025 -

Comments