Ábyrgð, frelsi og samfélagsleg festa
Ég vil standa fyrir ábyrgri fjármálastjórn, öflugri grunnþjónustu og skýrri forgangsröðun þar sem hagsmunir fjölskyldna, barna og eldri borgara eru hafðir að leiðarljósi. Þetta eru ekki mótsagnir, heldur forsendur hvers annars.
Sterk sveitarfélög byggjast ekki á útþenslu hins opinbera heldur á skýru hlutverki þess. Verkefni bæjarins er ekki að gera allt sjálfur, heldur að gera rétt: tryggja öryggi, innviði og grunnþjónustu í fremstu röð, en skapa jafnframt rými fyrir frumkvæði einstaklinga, félagasamtaka og atvinnulífs til að blómstra.
Ég aðhyllist borgarleg gildi þar sem ábyrgð einstaklingsins, sjálfsbjargarviðleitni og virðing fyrir eignarrétti og framtaki eru í forgrunni. Um leið tel ég mikilvægt að samfélagið sýni samstöðu, styðji við þá sem þurfa á að halda og tryggi að enginn verði skilinn eftir. Þessi jafnvægislist er kjarni þess sem ég vil standa fyrir.
Ég vil markaðssinnað sveitarfélag með lítil ríkisafskipti, lágar álögur og einfalt regluverk, þar sem fyrirtæki fá svigrúm til að skapa störf og verðmæti. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur með ábyrgri stjórnsýslu, festu í rekstri og pólitísku hugrekki til að forgangsraða.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um áratuga skeið sýnt að hægt er að sameina hagkvæman rekstur, öflugt velferðarkerfi og sterkt atvinnulíf. Ég vil fylgja þeirri vegferð áfram í Hafnarfirði.
Kristin gildi skipta mig einnig máli, ekki sem stjórntæki hins opinbera, heldur sem siðferðilegur og menningarlegur grunnur samfélagsins: virðing, ábyrgð, náungakærleikur og traust. Slík gildi eiga fyrst og fremst að lifa í hegðun okkar, ekki í reglugerðum.
Ég samsama mig þeirri sýn sem Vilhjálmur Egilsson lýsir í bók sinni Vegferð til farsældar:
að vera frjálslyndur íhaldssinni og frjálshyggjumaður með skammt af jafnaðarhugsjón.
Frjálslyndi og frjálshyggja knýja framfarir, en íhald og jafnvægi skapa stöðugleika.
Það er þessi blanda sem byggir farsæl samfélög til lengri tíma.
Ég vil nálgast stjórnmál frá hægri, með hjartað í samfélaginu og augun á framtíðinni.
ÁHERSLUMÁL
Gerum góðan bæ betri!

Reisn, sjálfstæði og öryggi

Einfaldara með snjöllum lausnum
Frelsi byggir á öryggi

Forvarnir eru besta fjárfestingin








