top of page
Search
  • himmi78

Efnhagslega áhrif kóvidfaraldursins

Updated: Jan 31, 2022


Núverandi meirihluti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur sýnt fram á skynsamlega nálgun í rekstri bæjarfélagsins og náð góðum árangri í fjármálum bæjarins eftir mörg erfið ár skuldaaukningar og tapreksturs. Algjör stakkaskipti hafa á orðið meðviðsnúningi úr tapi í hagnað og skuldaviðmið bæjarins eru nú langt undir viðmiði útreikninga á skuldahlutfalli skv. 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga. Hefur skuldahlutfallið ekki verið lægra í áratugi sem er ánægjuefni.

Hagstæð ytri skilyrði undanfarin ár hafa skilað auknum tekjum undanfarin ár sem voru nýtt skynsamlega til að greiða niður skuldir, jafnframt því sem unnið hefur verið að hagræðingu í rekstri.


Stóra spurningin nú er aftur á móti sú hvaða efnhagslegu áhrif kórónuveirufaraldurinn hefur á rekstrartekjur og útgjöld bæjarins og hvernig hægt verður að bregðast við. Útsvarstekjur er einn stærsti tekjupóstur sveitarfélga, sem ræðst af fjölda íbúa, launaþróun, atvinnuþátttöku og atvinnustigi, og gerði 4 ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2020-2023, sem samþykkt var í lok síðasta árs, ráð fyrir hækkun tekna um 5,0–6,4% á ári. Ljóst þykir að þær áætlanir muni ekki standast að óbreyttu. Á fundi bæjarstjórnar þann 2 september síðastliðinn var samþykktur viðauki II við fjárhagsáætlun. Þar er áætlaður tekjusamdráttur að fjárhæð um 1 milljarður króna, og vegur það þungt inn í veturinn. Útgjaldaaukning vegna faraldursins er áætluð um 10% af þessari upphæð.


Ljóst er að bregðast þarf við hinni nýju stöðu og er aðgerða þörf. Stuðningur ríkisins við sveitarfélög er mikilvægur þar. Hafnarfjarðarbær stendur vel en nauðsynlegt er að bregðast við þegar fárvirðri geysar. Nú er ekki rétti tíminn til að draga úr þjónustu eða framkvæmdum og aukin lántaka er ekki draumastaðan nú. Peningum bæjarbúa er betur varið á flestan annan hátt en í vaxtagjöld. Auknar skuldir hafa einnig óhjákvæmilega í för með sér skerta getu bæjarins til að sinna lögbundnum verkefnum sem verður bara mætt með niðurskurði og hagræðingu þegar fram líða stundir. Aukin skattheimta í formi útsvars er annar möguleiki en dugar skammt þegar tekjutapið er svo mikið sem raun ber vitni og atvinnuþátttaka hefur dregist umtalsvert saman.


Það er gott að vita til þess að traustur rekstur síðustu ára, ásamt samstöðu og einhug bæjarstjórnar, stjórnenda og starfsfólks, mun hjálpa okkur að komast í gegnum skafl Covid19 faraldursins. Fjárveiting í uppbyggingu innviða til að koma hjólum atvinnulífsins á snúning er aldrei mikilvægarien á tímum sem þessum. Sú aðgerðaráætlun sem samþykkt var í apríl síðastliðnum um að flýta framkvæmdum og endurbótum, forgangsröðun verkefna út frá breyttum forsendum ásamt fjölgun atvinnuúrræða mun ríða baggamun þegar við komum út úr þessum kafaldsbyl. Mér þykir rétt að ljúka þessum skrifum á orðum Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra, að "...bærinn hefur burði til að takast á við þær áskoranir sem kunna að felast í þeirri kælingu efnahagslífsins sem nú blasir við. Við horfum því bjartsýn fram á veginn".


Greinin birtist í Fjarðarfréttum þann 10. september 2020 - https://www.fjardarfrettir.is/umraeda/efnahagsleg-ahrif-kovidfaraldursins






13 views0 comments

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page