ÍÞRÓTTIR & TÓMSTUNDIR
Fjölbreyttar íþróttir fyrir öll æviskeið
Öflugt íþrótta- og tómstundastarf hefur verið rekið í Hafnarfirði um langt árabil. Mikilvægt er að efla áfram aðgang að fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga. Jafnframt verður með skipulegum hætti að stuðla að aukinni þátttöku eldri bæjarbúa í tómstunda- og heilsueflandi íþróttastarfi. Fjölbreytt og öflugt íþrótta- og tómstundastarf er mikilvægur hlekkur í forvörnum á ýmsum sviðum. Því er mjög brýnt að bjóða upp á fjölbreyttar íþróttir, líkamsrækt og hreyfingu fyrir alla bæjarbúa á öllum æviskeiðum. Styðja þarf frjáls félög á sviði íþrótta- og tómstundastarfs til nýrra og fjölbreyttra verkefna og jafnframt er mikilvægt að efla samstarf á milli skóla og frjálsra félagasamtaka í bænum. Þannig má tryggja að samfella verði sem best í skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi. Þá er mikilsvert að kynna bæjarbúum möguleika þeirra til útivistar við Hvaleyrarvatn, á fjölmörgum og fjölbreyttum gönguleiðum í upplandi bæjarins og aðgengilegum göngustígum víðs vegar í bæjarfélaginu.