top of page
Search
  • himmi78

Af skipulagsmálum

Updated: Jan 31, 2022

Núverandi meirihluti í bæjarstjórn Hafnarjarðar hefur ekki setið auðum höndum á fyrri helmingi núverandi kjörtímabils. Formaður skipulags- og byggingaráðs, Ingi Tómasson, hélt áhugaverða kynningu nýverið á fyrirhuguðum framkvæmdum og uppbyggingu íbúðahúsnæðis næstu árin í Hafnarfirði. Loks sér fyrir endann á tilfærslu Hamraneslínu sem hefur lengi verið þyrnir í augum Hafnfirðinga og er löngu tímabært að færa hana fjær byggð. Það opnar á nýja byggð suður af Völlum þar sem um deiliskipulag gerir ráð fyrir 537 íbúðum af öllum stærðum. Rétt era ð hvetja alla til að kynna sér það áhugaverða svæði og þær lóðir sem eru í boði á mjög aðgengilegri síðu. Slóðina má finna hér - https://skardshlidin.is/. Uppbygging í Skarðshlíðinni gengur vel og er útlit fyrir að ekki verði langt í að það svæði verði fullmótað. Sérstaklega athyglisvert var að sjá breytingar á Aðalskipulagi fyrir Ásvelli þar sem fjölbýlishús móts við sundlaugina koma til með að rísa, á landi sem áður taldi til Hauka. En mesta athygli vekja fyrirhuguð áform við höfnina sem vænta má að taka munimiklum breytingum til hins betra með aukinni byggð og opnum svæðum sem munu bæta ásýnd þessa fallega hluta bæjarins og mynda heilsteyptari mynd með núverandi miðbæ. Niðurstöður samkeppni um svæðið hafa skilað stefnumótun um gagngerar endurbætur á svæðinu í takt við breytta tíma og nýtingu í anda þess sem við höfum verið að sjá gerast í löndunum í kringum okkur. Þetta ætti að glæða svæðið auknu lífi og bæta nýtingu á þess. Að lokum er rétt að víkja að vinnu á “5 mínútna” hverfinu svokallaða, en það er vinnuheitið á uppbyggingaráformum frá Engidal að Flatarhrauni og Fjarðarhrauni. Skipulag fyrir fyrsti áfanga þess svæðis er lokið og liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun til endanlegrar samþykktar. Þar má vænta yfir 3000 íbúða byggð með allri þjónustu í göngufæri og gjörbreytingu á því svæði frá því sem við þekkjum það í dag. Þannig virðist margt vera á döfinni og uppbyggingar að vænta um allan bæ á þessu kjörtímabili, en áætlað er yfir 1000 íbúðir á þeim svæðum sem hafa nú þegar verið samþykkt og eru á leið eða nú þegar komin í útboð og uppbyggingarferli. Þegar svo mikil og jákvæð uppbygging á sér stað í bæjarfélaginu okkar, sem vænta má að leiði til fólksfjölgunar sem nema mun 2-3000 manns þá liggur beint við að spyrja hvernig skipulagi og nauðsynlegum framkvæmdum í samgöngumálum miðar. Hvernig ætlum við að bæta á núverandi samgöngukerfi og hver eru áform um eflingu almenningssamgangna og úrlausnir á núverandi flöskuhálsum í gatnakerfi bæjarins sem við Hafnfirðingar stöndum frammi fyrir? Þar er ekki síst við að glíma þjóðvegaframkvæmdir, sem eru á verksviði ríkisns. Þær geta ráðið úrslitum um það hvort og hvenær metnaðarfull áform bæjaryfirvalda um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis samkvæmt aðalskipulagi geti gengið eftir. Það er e.t.v. viðfangsefni, sem kynna þyrfti frekar og gæti verið efni í aðra grein.


Hilmar Ingimundarson

Hafnarfjörður, 17.11´2019


Greinin birtist í Fjarðarfréttum 21. Nóvember 2019 - https://www.fjardarfrettir.is/umraeda/af-skipulagsmalum16 views0 comments

Comentários


Post: Blog2_Post
bottom of page